• Eldisþorskur

Fundur um fiskeldi markar opnun rannsóknarstofu Rf á Ísafirði

3.8.2004

Þriðjudaginn 10. ágúst n.k. verður haldinn kynningarfundur á Ísafirði undir yfirskriftinni “Þorskeldi – verðmætasköpun í norðri.” Tilefni fundarins er að opna formlega rannsóknarstofu Rf á Ísafirði.

Sem kunnugt er hefur Rf rekið þjónustuútibú á Ísafirði í mörg ár en hefur nú lagt niður þjónustuþáttinn og hefur einkafyrirtæki tekið við þeim þjónustumælingum sem Rf sinnti þar áður. Í staðinn mun Rf opna rannsóknastofu á Ísafirði og hefur dr. Þorleifur Ágústsson verið ráðinn þar til starfa. Þorleifur lauk doktorsnámi í fiskalífeðlisfræði frá Gautaborgarháskóla árið 2001, starfaði um þriggja ára skeið hjá Íslenskri erfðagreiningu og Rala áður en hann gekk til liðs við Rf. Ráðning dr. Þorleifs endurspeglar áherslubreytingar í starfsemi Rf og þann vaxandi áhuga sem nú er á þorskeldi á Vestfjörðum. Mikilvægt er að uppbygging á sviði fiskeldis byggist á markvissum rannsóknum sem unnar eru í samvinnu háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja, innanlands jafnt sem erlendis. Markmið Rf er að efla rannsóknir á sviði fiskeldis í alþjóðlegu samstarfi og tengja þær við starfsemi fyrirtækja á vestfjörðum. Rf telur mikilvægt að vera í nánum tengslum við fiskiðnaðinn í hverjum landshluta og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við Vestfirðinga.

Á fundinum á Ísafirði mun sjávarútvegsráðherra flytja ávarp en síðan munu ýmsir innlendir og erlendir sérfræðingar fjalla um stöðu og framtíðarhorfur í fiskeldi, einkum í þorskeldi.

Fundurinn verður haldinn í húsnæði Þróunarseturs Vestfjarða, Árnagötu 2-4, en þar verður rannsóknarstofa Rf einmitt til húsa. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

9:00  Ávarp ráðherra.  - Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra

9:15  Stefna Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og hlutverk Rf á Ísafirði.  - Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf 

9:30 Fulltrúi Ísafjarðarbæjar setur fundinn.

9:35  Þorskeldi í Noregi, staða og framtíð.  - Ole Torrissen, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs hjá Hafrannsóknarstofnun Noregs í Bergen.

9:50 Lífeðlisfræði þorsksins - lykill að árangri í þorskeldi. - Björn Þrándur Björnsson, prófessor við Háskólann í Gautaborg, Svíþjóð.

10:05 kaffi

10:30 Hversu einsleitur er þorskstofninn?  - Einar Eg Nielsen stofnerfðafræðingur, Fiskirannsóknastofnun í Danmörku.

10:45 Þorskakynbætur- fyrstu skref í myndun eldisstofns.  - Jónas Jónasson, þróunarstjóri hjá Stofnfiski

11:00 DNA greiningar fyrir kynbætur og rekjanleika í fiskeldi.  - Jakob Kristjánsson, framkvæmdarstjóri Prokaria

11:15 Staða þorskeldis á Vestfjörðum.  - Þorleifur Ágústsson, Rf

11:45 Fundarlok

ATH!  Fundurinn verður haldinn á ensku og er aðgangur ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir. 

Nánari upplýsingar veita: 

Þorleifur Ágústsson:  891 8354

Sjöfn Sigurgísladóttir: 893 8251


Fréttir