Rf skýrsla um aðgerðir til að tryggja áframhaldandi greiðan aðgang íslenskra sjávarafurða að helstu mörkuðum.

18.8.2004

Á ríkisstjórnarfundi í gær kynnti sjávarútvegsráðherra skýrslu sem Rf tók nýlega saman fyrir ráðuneytið um leiðir til að tryggja að íslenskar sjávarafurðir eigi framvegis, sem hingað til, greiðan aðgang að helstu mörkuðum okkar.

Tilgangurinn með þessu átaki er að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum, viðhalda þeirri góðu ímynd sem íslenskar sjávarafurðir hafa náð að skapa sér á löngum tíma og að móta stefnu um öryggi íslenskra sjávarafurða. Á meðal þess sem Rf leggur áherslu á í skýrslu sinni er:

· að til staðar sé víðtæk sérfræðiþekking og aðstaða til mælinga á Íslandi

· að Íslendingar geti hverju sinni sýnt á vísindalegan hátt fram á hver staða íslenskra sjávarafurða er m.t.t. öryggis, heilnæmis og rekjanleika

· að Íslendingar geti haft áhrif á ákvarðanatöku á alþjóðlegum vettvangi um leyfileg hámarksgildi hinna ýmsu efna og örvera í sjávarfangi

· að vera skrefi á undan erlendum kaupendum og stjórnvöldum

· að vera viðbúin óvæntum uppákomum og tilbúin með svör

· að skapa samstöðu um uppbyggingu þekkingar og tækni á Íslandi á sviði öryggis, heilnæmis og rekjanleika sjávarfangs.

Í skýrslunni leggur Rf fram fimm megintillögur um aðgerðir til þess að auka öryggi útflutningstekna íslenskra sjávarafurða:

1. Að mynduð verði sérstök verkefnisstjórn sem móti stefnu og forgangsraði verkefnum.

2. Að byggður verði upp aðgengilegur gagnvirkur gagnagrunnur um efnainnihald sjávarafurða.

3. Að vöktunaráætlunin, sem þegar er komin í gang á vegum sjávarútvegsráðuneytisins, verði efld frekar.

4. Að áhættumat veri gert og þróað með sérstökum reiknilíkönum.

5. Að sett verði upp sérstakt nýtt rannsóknasvið innan Rf sem vinni að öryggi og heilnæmi sjávarafurða.

Þær aðgerðir sem Rf gerir tillögur um munu, ef framkvæmdar verða, kalla á töluverða uppbyggingu í sérfræðiþekkingu, tækjakosti og aðstöðu. Það er mat Rf og ráðuneytisins að sú uppbygging geti farið fram að mestu leyti utan höfuðstöðvanna í Reykjavík og tengst afar vel breytingum á eðli og starfsemi útibúa stofnunarinnar.

Lesa skýrslu


Fréttir