Vöktun á lífríki sjávar við Ísland: Engar fréttir eru góðar fréttir

7.9.2004

Þrátt fyrir nýlegar fréttir af óvenju hraðri hlýnun á Norðurskautinu taka breytingar í náttúrunni sem betur fer oftast langan tíma. Rf hefur í mörg ár tekið þátt í verkefni þar sem fylgst er með mengun og ástandi lífríkis sjávar umhverfis Ísland og niðurstöður mælinga sem ná til áranna 2002-2003 sýna litlar breytingar frá fyrri árum, t.d. eru lítil merki um að styrkur þungmálma og þrávirkra lífrænna efna færist í vöxt. Þetta má m.a. lesa má úr skýrslunni Monitoring of the Marine Biospheare around Iceland in 2002-2003.

Í skýrslunni eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis sem Umhverfisstofnun leiðir og styrkt er af Umhverfisráðuneytinu. Markmið verkefnisins er að uppfylla skuldbindingar Íslands varðandi Oslóar- og Parísarsamninginn (OSPAR), auk AMAP (Artic Monitoring Assessment Program).  Í vöktuninni eru mæld ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski og kræklingi, en þessum lífverum var safnað umhverfis landið á árunum 2002 og 2003. Niðurstöður mælinganna sem lýst er í þessum skýrslum eru framhald vöktunarmælinga sem hófust árið 1990.

Í samanburði við önnur hafsvæði er styrkur þungmálma í þorski og kræklingi hér við land oft við eða undir viðmiðunargildum Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), með undantekningum þó. Kadmín mælist t.d. sem fyrr fremur hátt í lífríki sjávar hér við land, sem virðist eiga sér náttúrulegar jarðfræðilegar skýringar, því ekkert hefur komið fram sem bendir til mengunar af mannavöldum.

Samanburður við önnur hafsvæði leiðir í ljós að styrkur þrávirkra lífrænna efna í lífríki sjávar við Ísland er með því lægsta sem mælist á nálægum hafsvæðum.

Nánari upplýsingar veitir Eva Yngvadóttir, efnaverkfræðingur á Rf. Netfang: eva@rf.is sími: 530 8600.

Lesa skýrslu 

AMSUM-Verkefnið
Fréttir