Haustfundur Rf 2004 í næstu viku
Þetta er annað árið í röð sem Rf stendur fyrir slíkri dagskrá, en í fyrra sóttu um 80 manns slíkan fund sem bar yfirskriftina Árangur rannsókna - sóknarfæri og var haldinn á hótel Nordica í Reykjavík. Fundurinn í ár ber reyndar ekki sérstakan titil en óhætt er að segja að horft verði bæði til baka og fram veginn í umfjöllunarefnum fundarins.
Á meðal góðra gesta í Grindavík má nefna Árna M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, sem mun opna fundinn, Björn Dagbjartsson, fv. alþingismaður og forstjóri Rf á árunum 1974-1984 mun líta um öxl í erindi sem hann kallar Í þá gömlu góðu daga. Þá mun Sjöfn Sigurgísladóttir ræða um stefnu og nýjar áherslur í starfsemi Rf.
Steven Dillingham, stofnandi ráðgjafarfyrirtækisins Strategro International í Bandaríkjunum mun fjalla um framtíðarhorfur varðandi markaðssetningu nýrra sjávarafurða, en hann hefur m.a. unnið með norskum útflytjendum á undanförnum árum.
Sigurjón Arason, sérfræðingur á Rf, mun segja frá verkefninu Vinnsluspá þorskafurða, en í því voru kortlagðir þeir þættir sem hafa áhrif á verðmæti og gæði þorskafurða og þróuð líkön til auðvelda ákvarðanir við að velja þau veiðisvæði sem gefa besta fiskinn til vinnslu á hverjum árstíma, en þannig má m.a. styrkja vinnslustjórnun. Tilgangurinn var m.a. sá að fá sem gleggstar upplýsingar um hvaða breytur í umhverfi, veiðum og vinnslu hafa áhrif á verðmæti þorsks.
Dagskránni lýkur síðan með tveimur erindum um mál málanna í dag, öryggi matvæla. Oyvind Lie, prófessor við Háskólann í Björgvin mun fjalla um öryggi sjávarafurða og Helga Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri Umhverfis- og gæðasviðs Rf mun hnykkja enn frekar á þessum málaflokki og tala um verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða og hvernig best er að tryggja það í framtíðinni.
Sem fyrr segir stendur fundurinn frá kl. 13 - 17 og er hann opinn og öllum heimill aðgangur á meðan húsrúm leyfir.
ATH! Sætaferðir verða frá Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4 kl. 12:00 og aftur frá Grindavík kl. 18:15.