Vietnamar endurgjalda Rf heimsóknir síðustu missera.
Snemma árs 2003 tóku starfsmenn Rf að sér að semja kennsluefni sem tengist vinnslutækni og gæða- og öryggismálum matvæla fyrir háskóla í Víetnam. Efnið hefur verið unnið í samvinnu við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og heimamenn og er einkum ætlað starfsfólki í gæðamálum hjá fiskvinnslum í Viet nam en er einnig ætlað að bæta kennslu á þessu sviði í þeim háskólum sem að verkefninu koma.
Starfsmenn Rf hafa þrisvar heimsótt Víetnam í þessu samhengi og í síðustu viku endurguldu samstarfsaðilar Rf frá Víetnam heimsóknirnar. Í heimsókn sinni til Íslands var m.a. farið með hópinn að Gullfossi og er myndin tekin þar.
Tilgangur heimsóknarinnar var að leggja lokahönd á verkið af hálfu Rf og einnig skoðaði hópurinn fyrirtæki í fiskvinnslu og sat fyrirlestra hjá Sjávarútvegsskóla Sameinuðu Þjóðanna. Nú munu Vietnamarnir ljúka verkinu og er áætlað að námsefnið verði tilbúið til kennslu næsta vor. Námsefnið sem búið er að semja og aðlaga fyrir aðstæður í Viet nam er mikið að vöxtum, enda ætlað til kennslu á 12 daga, yfirgripsmiklu námskeiði.
Að sögn Sveins V. Árnasonar, sem var verkefnisstjóri verkefnisins fyrir hönd Rf hefur aðkoma Rf að þessu verkefni verið afar lærdómsrík og má ætla að reynslan frá þessu samstarfi muni nýtast vel ef farið verður af stað með önnur, hliðstæð verkefni í öðrum löndum.
Eldri fréttirnar eru hér
http://www.rf.is/frettir/2003/04/11/nr/261 - Fyrsta heimsókn til Viet nam
http://www.rf.is/frettir/2003/11/11/nr/403 Önnur heimsókn
http://www.rf.is/frettir/2004/01/16/nr/466 - Þriðja heimsókn Rf til Viet nam