• Fóður fyrir þorsk, Þátttakendur

Fóður fyrir þorsk

15.12.2004

Þann 25.-26. nóv. sl. var haldinn verkefnafundur í Horsens í Danmörku í norrænu verkefni sem er styrkt af Nordic Industrial Fund. Verkefnið heitir Fóður fyrir þorsk (Feed for Atlantic cod). Verkefnið er til þriggja ára en það hófst fyrir um það bil ári síðan.

Styrkveitingin felst aðallega í því að koma á tengslasambandi milli norrænna vísindamanna og fyrirtækja sem vinna að þorskeldi hvort heldur er í fóðurgerð eða eldi. Rannsóknastofnanirnar, sem taka þátt í verkefninu leitast síðan við að fá styrki til þorskeldisrannsókna úr sjóðum í sínum heimalöndum. Niðurstöður úr þessum rannsóknum eru síðan kynntar og ræddar á verkefnafundum sem eru haldnir eru tvisvar á ári. Eins verður leitast við að kynna verkefnið og niðurstöður rannsóknanna útávið það er á ráðstefnum og sýningum sem tengjast fiskeldi.

Fimmtán fyrirtæki, skólar og sofnanir eru þátttakendur í verkefninu og eru þeir eftirtaldir:

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins  

Laxá fóðurverksmiðja, Akureyri

Háskólinn á Hólum

Brim fiskeldi, Akureyri

Primex, Reykjavík

Sídarvinnslan hf.

Danafeed, Danmörku

Tripple Nine, Danmörk

Akvaforsk, Noregi

Havforskningsinstituttet, Noregi

Swedish University of Agricultural Sciences (SLU)

COOP, Svíþjóð

DIFRES, Danmörku

Fiskaaling A/S, Færeyjum

Kosin Seafood, Færeyjum

 Í verkefninu er lögð mikil áhersla á að leita leiða til að lækka kostnað á þorskeldisfóðri, en um 50-60% af rekstrarkostnaði eldisstöðva er fóðurkostnaður. Í dag er aðallega notað dýrt hágæða fiskimjöl og lýsi í fóðrið. Íslendingar (Rf, Laxá, Hólar) eru að athuga hvort nýta megi ódýrara prótein úr jurtaríkinu að hluta í fóðrið og að reyna að nýta lakara fiskimjöl. Prótein er dýrasti hluti þorskfóðurs svo mikilvægt er að lækka kostnað við það. Norðmenn og Danir (Akvafors, Danafeed) eru að rannsaka hvort hægt sé að skipta út hluta af lýsi fyrir ódýrari jurtaolíur. Bráðabirgðaniðurstöður úr þessum tilraunum lofa mjög góðu og kemur í ljós að fiskurinn vex vel á jurtaolíu. Eftir er að gera nákvæma úttekt á gæðum eldisfisksins sem neysluvöru. Það hefur komið í ljós að fitusýrusamsetning fóðurs kemur fram í fitusýrusamsetningu fisksins. Þess vegna minnkar hlutur „hollu” omega-3 fitusýranna þegar fiskur er alinn á jurtaolíu. Sérfræðingar hjá Akvaforsk eru að athuga hvað það tekur langan tíma fyrir ákveðna fitusýrusamsetningu í fóðri að koma fram í holdi þorsksins. Það væri mjög hagkvæmt ef hægt yrði í framtíðinni að ala þorsk að stórum hluta á jurtahráefni en til að fá eðlilega fitusýrusamsetningu þorsks mætti ala hann á fiskimjöli og lýsi í einhvern ótiltekinn tíma fyrir slátrun. Havforskningsinstituttet og Danafeed eru að hrinda af stað rannsókn þar sem hráefni (fiskimjöl og lýsi) í fóðrinu er af misjöfnum gæðum. Einnig á að kanna með sérstökum eldisútbúnaði, hvort þorskur velji hágæðafóður umfram fóður af lélegri gæðum ef hann hefur valið. Sænsku þátttakendurnir (SLU og COOP) ætla fljótlega að koma af stað neytendakönnun þar sem neytendur meta og dæma villtan fisk og eldisfisk. Verður þá einnig metinn eldisfiskur sem er alinn á fóðri sem er að hluta til úr jurtaríkinu. Könnunin verður gerð bæði á vesturströnd og austurströnd Svíþjóðar þar sem talið er að smekkur Svía fyrir sjávarafurðum sé mjög mismunandi á þessum tveim svæðum. Það eru því margar spennandi norrænar rannsóknir í gangi í þorskeldi sem verður fróðlegt að fylgjast með á næstu árum.

Verkefnisstjóri er Rannveig Björnsdóttir Rf


Fréttir