Fréttir

Örslátrun til nýsköpunarörvunar í sveitum landsins

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sala afurða beint frá býli fer vaxandi. Haldast þar í hendur aukning ferðamanna, breytt neyslumynstur og vilji bænda til að sinna auknum óskum neytenda um staðbundna framleiðslu (e. local food). Sökum þessa er lagt til að reglur verði aðlagaðar þannig að bændum verði gert kleift að slátra, vinna og selja neytendum beint afurðir úr eigin bústofni.

Verði bændum gert kleift að slátra, vinna og selja neytendum beint mun það stuðla að aukinni nýsköpun í sveitum landsins og viðhalda mikilvægri verkkunnáttu fyrir fæðuöryggi Íslendinga. Því leggur Matís til að gefið verði upp á nýtt og tækifæri til verðmætasköpunar sett í hendur bænda.

Heimaslátrun er leyfileg á lögbýlum, þar sem afurðir úr slíkri slátrun er eingöngu ætlaðar til notkunar á býlinu sjálfu. Hverskyns dreifing eða sala er bönnuð. Það er alkunna að þær reglur eru sniðgengnar. Að teknu tilliti til fyrirkomulags í Þýskalandi og í fleiri löndum ætti að aðlaga reglur þ.a. heimaslátrun, þar sem dreifing og sala afurða fer fram sé möguleg. Kalla mætti slík sláturhús örsláturhús.

Við viljum öll neyta öruggra og heilnæmra matvæla áhyggjulaust

og er áhættumat forsenda þess. Auk þess tryggir áhættumat

framleiðendum þann sveigjanleika sem þarf til að stunda sjálfbæra nýsköpun.

Í örsláturhúsum geta sauðfjárbændur nýtt möguleika sína til aukinnar verðmætasköpunar og lífvænlegra rekstrarumhverfis, sér og þjóðinni allri til heilla. Mikilvægt er þó að muna að allar breytingar sem þessar geta ekki átt sér stað án innleiðingar áhættumats, enda skal matvælaöryggis ávalt gætt. 

Tillaga Matís í heild sinni varðandi reglur um örsláturhús (pdf skjal).