Fréttir

Plastmengun er raunveruleg ógn við lífríki jarðarinnar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú rétt í þessu lauk mögnuðum þætti í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur er á RÚV á þriðjudagskvöldum. Að þessu sinni var fjallað um plast, bæði örplast og plast sem til að mynda fuglar og önnur dýr hafa étið.

Augu ráðamanna víðs vegar um heiminn hafa verið að opnast hvað varðar ógnina sem okkur stafar af plasti. Til að mynda stefnir Evrópusambandið á stórátak í þessum málum og ljóst þykir að næstu rannsóknaáætlanir, þá sérstaklega sú sem hefst 2021, muni taka mið af þessum áherslum.

Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum hversu mikið áfall það var fyrir Sigríði Halldórsdóttur hjá RÚV að sjá niðurstöður rannsókna Matís á vatni frá þvottavélum, vatni sem fer beinustu leiði niður í niðurföllin hjá okkur og út í sjó. Matís hefur verið öflugur þátttakandi í rannsóknum og umfjöllun um þessi mál undanfarin ár og hefur fyrirtækið, ásamt samstarfsaðilum, beitt sér fyrir því að málefni plastmengunar, þá sérstaklega örplasts, fái aukið vægi.

Matís hefur byggt upp öfluga innviði og þekkingu til rannsókna á plasti í umhverfinu, tekið þátt í rannsóknaverkefnum á plasti, er þátttakandi í samráðsvettvangi stjórnvalda um aðgerðaráætlun í plastmálefnum og mun leiða verkefni innan formenskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019-2021 en það verkefni mun fjalla um að byggja upp grunn til að stunda rannsóknir og vöktun á plasti, svo fátt eitt sé nefnt.

Plastmengun er raunveruleg ógn við lífríki sjávar. Við Íslendingar eigum mikið undir lífríki sjávar enda hefur sjávarútvegur verið okkar helsta atvinnugrein undanfarna áratugi. Það er því mikilvægt að þekking sem til staðar er sé nýtt til hins ýtrasta til að vinna gegn þeirri miklu vá sem plastmengun í sjó er. Ætlum við okkur að nýta auðlindir hafsins með þeim hætti sem verið hefur og jafnvel betur? Til þess að það sé hægt þarf að stunda rannsóknir á öllum þáttum virðiskeðju sjávarafurða, frá lífríki hafsins til veiða og vinnslu og á borð neytenda og svo það sem fellur til frá fiskvinnslum.

Hér byggir Matís á góðum grunni enda hefur fyrirtækið og forveri þess (Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins) unnið þrekvirki ásamt samstarfsaðilum í greininni, í því að auka virði sjávarfangs með sjálfbærum hætti.

Oft var þörf en nú er nauðsyn að taka höndum saman og beita vísindunum til þess að koma í veg fyrir að lífríki sjávarins í kringum Ísland beri varanlegan skaða af. Við þurfum að rannsaka stöðuna, meta hættuna sem til staðar er og sjá jákvæðu tækifærin sem til staðar eru ef við stígum öflugt skref fram á við.

Áfram gakk!