Fréttir

Samstarf um menntun er liður í verðmætasköpun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega rituðu Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís grein sem birtist í Fréttablaðinu 30. nóvember síðast liðinn.

Á milli Matís og Háskóla Íslands ríkir gott og farsælt samstarf. Samningur er í gildi um kennslu og rannsóknir og gengur hann m.a. út á samnýtingu aðfanga og innviða, samstarf um rannsóknir og uppbyggingu mannauðs með það að markmiði að vera í fararbroddi á lykilfræðasviðum fyrir íslenskt samfélag.

Samningurinn á milli Háskóla Íslands og Matís lagði grunninn að eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Alls hafa 64 meistaraverkefni og 23 doktorsverkefni verið unnin á vettvangi Matís frá 2007, langflest með Háskóla Íslands.

Sjálfbær matvælaframleiðsla er lykill að því að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Inn í samstarf Matís og Háskóla Íslands fléttast einnig samstarf við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er hér á landi og hefur m.a. stutt fimm doktorsnema til að ljúka námi við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands í samstarfi við Matís. Ísland er meðal fremstu sjávarútvegsþjóða í heimi og hefur svo sannarlega margt fram að færa til aukins fæðuöryggis og velferðar í þróunarlöndum.

Með dýrmæta reynslu í farteskinu og óbilandi trú á gildi vísinda til framþróunar stefna Matís og Háskóli Íslands á áframhaldandi öflugt samstarf á næstu árum. Meðal áherslu­atriða þess samstarfs verður nauðsynleg innviðauppbygging á sviði matvæla og rannsóknir sem miða að sjálfbærri nýtingu lífauðlinda til lands og sjávar.

Greinina má lesa í heild sinni hér.