Fréttir

Snjall-merkingar á matvörum upplýsa neytendur

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á dögunum hófst nýtt EIT food verkefni undir nafninu „Smart Tags“. Markmið verkefnisins er að auka traust neytenda á matvælum og matvælakerfum með því að deila upplýsingum um virðiskeðjuna í gegnum allan lífsferil vörunnar. Verkefnið miðar að því að deila gagnvirkum upplýsingum með neytendum og birgjum með notkun svokallaðra snjall-merkinga eða snjall-merkja (Smart Tags). Tæknin býður upp á fjölmarga möguleika á sviði upplýsingagjafar, ásamt þróun á vöru og þjónustu. Með tilkomu tækninnar fær matvælaiðnaðurinn einnig öflugt tæki til að öðlast innsýn í þarfir neytenda og auðveldar því nýsköpun miðaða að þörfum neytenda. 

Matvælavirðiskeðjur á alþjóðavettvangi eru oft langar og flóknar. Það veldur því að neytendur eiga erfitt með að treysta þeim upplýsingunum sem veittar eru af birgjum. Rannsóknir hafa sýnt að þær upplýsingar sem eru á matvælum í dag eru ófullnægjandi að mati neytenda. Dæmi um upplýsingar sem neytendur hafa áhuga á eru m.a.; innihaldsefni, uppruni, sjálfbærni vöru, „fair trade“, flutningsleiðir og flutningsmáti, endingartími og endurvinnslumöguleikar. Upplýsingar um næringargildi geta oft verið torskiljanlegar, auk þess sem vörur eru oft skreyttar með merkingarlausum eða órökstuddum merkingum líkt og „sjálfbært“, „náttúrulegt“ og „heilsusamlegt“.

Snjall-merkingar geta verið á margvíslegu formi. Þær geta verið á formi einfaldra strikamerkinga sem hægt er að lesa með snjallsíma, einnig geta þær notast við virkt breytiblek sem geta gefið viðeigandi rauntíma-upplýsingar. Snjall-merki gefa einnig neytendum tækifæri á því að veita aðhald með beinum samskiptum við framleiðendur, birgja eða aðra hagsmunaaðila. Hugtakið snjall-merki er notað yfir merkingar sem geta mælt umhverfisbreytur með t.d. breytibleki, vísum eða nemum með notkun hugbúnaðarlausna. Strikamerki prentuð með virku breytibleki breytast sjálfvirkt í samræmi við umhverfisbreytur, til dæmis við hita- eða rakabreytingar. Við þessar aðstæður birtast, hverfa eða breyta um lit hlutar strikamerkisins og geta því gefið uppfærðar upplýsingar til neytandans.

Smart Tags verkefninu er stýrt af VTT í Finnlandi, en aðrir þátttakendur eru Matís, Háskólinn í Reading á Bretlandi, Háskólinn í Varsjá í Póllandi, KU Leuven í Belgíu, AZTI á Spáni, DouxMatok í Ísrael og Maspex í Póllandi. Verkefnið er stutt af EIT Food sem heyrir undir Evrópusambandið.

Þær nýstárlegu lausnir sem þróaðar verða í verkefninu verða skapaðar í náinni samvinnu við neytendur og aðra hagsmunaaðila í öllum þáttökulöndum verkefnisins. Verkefnið mun standa yfir út árið 2021 og hægt verður að fylgjast með framvindu þess á vefsíðu verkefnisins og Twitter reikningi þess.