Fréttir

Þrjú útflutningsleyfi fyrirtækja í gegnum Matarsmiðju Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á dögunum fékk Margildi svokallað A leyfi útgefið af Matvælastofnun til framleiðslu, sölu og dreifingar á lýsi úr uppsjávarfiskum en slíkt leyfi gerir þeim kleyft að flytja framleiðsluvörur sínar til annarra Evrópulanda.

Þó svo að ekki sé ætlunin að hefja mikla framleiðslu á lýsi hér í Matarsmiðju Matís á Vínlandsleið, þá er leyfið samt sem áður skilyrði þess að geta sent framleiðsluvörur til kynningar á innlenda sem erlenda markaði. Margildi er þriðja fyrirtækið til að fá A leyfi í Matarsmiðju Matís í Reykjavík. Arctic seafood var fyrst til að fá slíkt leyfi fyrir krabbavinnslu sína og fyrir um mánuði síðan fékk Trít sitt A leyfi, en megin starfssemi Trít er að útbúa matargjafakörfur. Starfssemi Trít hér í Matís snýst um framleiðslu afurða úr villtri gæs s.s. gæsaconfi og  gæsalifrarmús ásamt tilheyrandi meðlæti eins og lauksultu og sérstakri sósu.

Það að þrjú fyrirtæki séu komin með útflutningsleyfi til Evrópu á sínar vörur, auk þess sem allnokkrir frumkvöðlar og smáframleiðendur eru með leyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, staðfestir að aðstaða Matís á Vínlandsleið uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til matvælafyrirtækja.

Leyfisveitingar eru með tvennum hætti hér á landi. Matvælastofnun sinnir eftirliti og gefur út starfsleyfi fyrir framleiðsluvörur úr dýraríkinu en Heilbrigðiseftirlitið veitir leyfi og er með eftirlit á vörum úr jurtaríkinu. Viðfangsefni þeirra sem eru með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti eru af ýmsum toga; viskíframleiðsla á frumstigi, bjórbruggun, súkkulaðigerð, smákökubakstur, deiggerð, sinnepsgerð, safagerð og bulsugerð, eru dæmi um vörur sem þegar eru komnar í framleiðslu og væntanlegt á næstu vikum er snafsagerð og eftiréttagerð.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís og nánari upplýsingar um matarsmiðjur Matís má finna www.matis.is/matarsmidjur/