Þróunarsamvinna í starfsemi Matís

21.12.2015

Matís og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar á undan hefur verið samstarfsaðili um kennslu í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, UNU-FTP, frá upphafi starfsemi skólans árið 1998.

"Í náminu er lögð áhersla á hagnýta þekkingu og reynslu og nemendur vinna náið með íslenskum leiðbeinendum í verkefnavinnu og starfskynningum sem taka rúman helming þeirra sex mánaða sem námið varir. Á hverju ári er boðið upp á sérnám á 3-4 brautum, en sérnámið tekur 4-5 mánuði. Matís sér um kennslu á gæðabraut og eru nemendur á þeirri braut á bilinu 5 til 10. Á hverju ári koma 15-20 sérfræðingar Matís að kennslu og verkefnaleiðbeiningum", segir Heiða Pálmadóttir, fagstjóri hjá Matís.

Það getur verið heilmikið púsluspil að koma dagskránni fyrir sérnámið saman, "fyrst eru fyrirlestrar í 6 vikur og þar koma ýmsir að og ekki bara sérfræðingar hjá Matís, heldur fólk vítt og breitt úr íslenskum fiskiðnaði og tengdum greinum eins og flutningum og pakkningum. Það er farið í heimsóknir þar sem fyrirtæki taka á móti nemendum, þetta eru skemmtilegar og fræðandi heimsóknir fyrir nemendur og ekki síður fyrir fylgdarmenn. Skemmtilegar umræður skapast frekar í óformlegum heimsóknum en þegar setið er í fyrirlestri um efnið. Mér hefur sjálfri þótt gaman og fræðandi að fara með í þessar heimsóknir," segir Heiða Pálmadóttir sem um langt árabil hefur haft umsjón með kennslunni.

Hagur UNU-FTP skólans af samstarfinu:

  • Matís hefur á að skipa fjölhæfum sérfræðingum með langa reynslu af rannsóknum og þjónustu í fiskiðnaðinum
  • Sérfræðingar Matís hafa góð tengsl við íslenskan fiskiðnað vegna smæðar landsins, allt frá veiðum til útflutnings og neyslu
  • Sérfræðingar Matís eiga margháttað samstarf við íslenska háskóla og tengjast menntun bæði í grunnámi og framhaldsnámi og mynda brú milli iðnaðar og háskóla á Íslandi

Hagur Matís af samstarfinu:

  • Matís leggur sitt að mörkum til þróunarhjálpar
  • Sérfræðingar Matís viðhalda tengslum við sjávarútveg og fiskiðnað og varðveita grunnþekkingu sína á því sviði
  • Skapar ný tækifæri til aukinna verkefna á alþjólegum markaði

Nemendur vinna lokaverkefni sín hjá Matís og við það skapast tengsl við nemendur sem slitna ekki. Margir koma aftur til frekara náms hér á Íslandi, þó nokkrir hafa komið í doktorsnám og mastersnám á síðustu árum. Við það að dvelja svo lengi á Íslandi skapast mikil og varanleg tengsl milli manna. Þetta hefur getið af sér verkefni og vinskap sem lengi heldur.

UNU_FTP

"Ég hef verið í sambandi við nemenda frá SriLanka, hann er að koma upp gæðakerfi og leitaði ráðlegginga um framkvæmd á einstökum mælingum eins og gæðamælingum á fiski og frekari útskýringum á aðferðafræði – þetta er hægt að vinna í gegnum netið og tekur okkur lítinn tíma að afgreiða. Annað dæmi er um nemanda í Kenýa sem hefur verið í sambandi vegna fitusýrugreininga en henni er sérstaklega hugleikið að auka lýsisneyslu, sérstaklega hjá ungum börnum og mæðrum þeirra.  Óneitanlega verður manni hugsað til nemenda sinna þegar hörmungar dynja yfir þjóðir þeirra og maður veit aldrei hvað um þau verður sérstaklega ef tengslin eru ekki stöðug. Það var líka sterk reynsla að taka á móti nemendum frá Norður Kóreu og Kúbu meðan ástandið var þar sem verst," segir Heiða.

"Allt er þetta vel menntað fólk í byrjun og ákaflega áhugasamt um að læra og kynna sér sem best það sem við höfum upp á að bjóða" segir Heiða að lokum.


Fréttir