• HI_merki

Traust samstarf við Matís um kennslu og rannsóknir

24.11.2015

Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og Matís hafa gert samning sín á milli um áframhaldandi samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, undirrituðu samninginn í gær. Með samningnum er tryggð áframhaldandi samvinna um að þróa og bæta nám í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands. Samkomulagið festir enn frekar í sessi hið öfluga samstarf Háskóla Íslands og Matís.

Helstu atriði samnings Matvæla- og næringarfræðideildar og Matís eru:

  • Tryggja ásættanlegan fjölda nemenda í matvæla- og næringafræði við Háskóla Íslands.
  • Þróa og bæta nám í matvæla- og næringafræði  við Háskóla Íslands og tryggja því faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Vinna saman að fleiri verkefnum sem tengja saman greinar matvælafræði, matvælaöryggis, líftækni og næringarfræði. Áfram skal unnið saman að uppbyggingu tækja, gagnagrunna  og annara innviða.
  • Nemendur geta unnið að rannsókna- og þróunarverkefnum undir leiðsögn starfsmanna Matís undir umsjón fastráðinna kennara eða gestaprófessora Matvæla- og næringarfræðideildar og samkvæmt reglum Háskóla Íslands um hæfi leiðbeinenda.  
Undirritun_HI_Matis_LoRes Frá vinstri: Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís Guðjón Þorkelsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar og sviðsstjóri hjá Matís, Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og
Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Matvæla- og næringarfræðideild og Matís hafa átt gott samstarf um kennslu um langt skeið en starfsmenn Matís hafa í gegnum tíðina kennt við deildina. Nú hefur samstarfið aukist enn frekar en tveir starfsmenn Matís hafa fengið fasta stöðu við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og einn starfsmaður deildarinnar hefur fengið fasta stöðu við Matís.

  • Björn Viðar Aðalbjörnsson, sérfræðingur hjá Matís, hefur gegnt 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá 1. janúar 2015.
  • Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, gegnir 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá og með 1. janúar 2016.
  • Alfons Ramel, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, gegnir 20% stöðu sérfræðings hjá Matís frá og með 1. janúar 2016.

Matís er leiðandi á Íslandi í rannsóknum  á sviði matvælaframleiðslu, og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við Háskóla Íslands að kennslu og þjálfun nemenda.

Matvæla- og næringarfræðideild er ein öflugast eining Háskóla Íslands í rannsóknavirki á hvert stöðugildi kennara. Deildin leitast við að vera í fremstu röð með vönduðum rannsóknum og kennslu sem stenst samanburð á alþjóðlegum vettvangi. Samstarfið við Matís rennir stoðum undir þau markmið. Þá er rík áhersla á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís í stefnu Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar veita Inga Þórsdóttir og Sveinn Margeirsson.


Fréttir