Fréttir

Tvær nýjar greinar í Icelandic Agricultural Sciences

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tvær nýjar greinar voru að birtast í hefti 32/2019 alþjóðlega vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences (www.ias.is).

Fyrri greinina má nálgast hér: https://ias.is/wp-content/uploads/2019/12/IAS-2019-6-Bjorn_Gudmundur_Arngrimur_Thorsteinn_61-74.pdf

Greinin, Úrkoma, afrennsli og tap af næringarefnum af mýrartúnum á Hvanneyri, er eftir þá Björn Þorsteinsson, Guðmund Hrafn Jóhannesson, Arngrím Thorlacius og Þorstein Guðmundsson.

Greinin fjallar um magn efna í afrennslisvatni frá túnum á Hvanneyri. Helstu næringar- og áburðarefnin, köfnunarefni (N), fosfór (P), kalí (K), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg), natríum (Na) og brennisteinn (S), voru mæld í afrennslisvatninu, auk úrkomu og rennsli. Auðleyst ammóníum, nítrat, og fosfat voru einnig mæld.

Niðurstöðurnar sýndu að mikill munur var bæði á magni og styrk efna í frárennslinu milli árstíða, þar sem mun meira afrennsli var yfir vetrarmánuðina og styrkur efna var þá einnig hærri en yfir vaxtartímann. Heildarútskolun Ca, Mg, K og Na reyndist frekar mikil en útskolun köfnunarefnisþátta og fosfórs var minni en búast mátti við með tilvísun til þess að um er að ræða áborið ræktarland á framræstri mýri.

Þetta er fyrsta rannsóknin á tapi næringarefna af ræktunarlandi á vel skilgreindu vatnasviði þar sem hægt er að gera almennilega grein fyrir afdrifum næringarefna í frárennsli skurða. Þetta er því afar mikilvægt innlegg í umræðu um tap efna í landbúnaði og hugsanlega ofauðgun í afrennsli af túnum.

Seinni greinina má nálgast hér: http://ias.is/wp-content/uploads/2019/12/IAS-2019-7-TMulloy_ICBarrio_KBjornsdottir_ISJonsdottir_DSHik_-75-85.pdf

Greinin, Áburður jafnar skammtímaáhrif sauðfjárbeitar á hálendi Íslands, er eftir þau Tara A. Mulloy, Isabel C. Barrio, Katrínu Björnsdóttur, Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur og David S. Hik.

Í greininni segir frá tilraunum á Þeistareykjum og á Auðkúluheiði þar sem áhrif sauðfjárbeitar á gróðurþekju og lífmassa gróðurs á lítt gróinu yfirborði, með því að bera saman beitta og óbeitta reiti sem ýmist voru meðhöndlaðir með áburði eða ekki. Rannsóknin var endurtekin í tveimur mismunandi búsvæðum (fjalldrapamóa og mel) á tveimur landssvæðum, innan og utan eldgosabeltisins. Sauðfjárbeit hafði ekki áhrif á gróðurþekju lítt gróins yfirborðs, en í ábornum reitum á slíku landi minnkaði beitin lífmassa plantna (aðallega grasa). Beitarálag getur aukist verulega á ábornum svæðum og vinnur það gegn uppsöfnun lífmassa. Við notkun áburðar til að stemma stigu við jarðvegseyðingu á afréttum þarf því að taka tillit til þess lífmassa sem fjarlægður er með aukinni beit.

Umræða um áhrif sauðfjárbeitar og beitarstjórnun á afréttum og á jarðvegseyðingu er mikil en þekkingu um áhrif beitar og beitarstjórnar er ábótavant. Þessi rannsókn er því mikilvægt framlag sem bæði eykur þekkingu okkar og er málefnalegt innlegg í umræðu um beitarmálin.

Ritstjórn

IAS