Fréttir

Um þróun í sjávarútvegi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 14. október sl. þakkar Arnljótur Bjarki Bergsson Sigurjóni Þórðarsyni fyrir grein í Morgunblaðinu 7. október. Tilefni greinarskrifa Sigurjóns er frétt á vef Matís frá 29. september að lokinni velheppnuðum viðburði World Seafood Congress. Í frétt Matís er hvorki talað um met né eru lýsingarorð í efstastigi notuð. Í fréttinni á vef Matís er bent á að útflutningsverðmæti á hvert kg afla þorsks hafi aukist um ríflega 350% frá árinu 1981. Sigurjón bendir réttilega á að verð þorskflaka á Bretlandsmarkaði hafi hækkað meira á sama tíma. Hér að neðan er ítarlegra svar Arnljóts Bjarka við grein Sigurjóns.

Í fréttinni á vef Matís er jafnframt þróun verðmætasköpunar í sjávarútvegi frá árinu 2003-2016 rakin. Árið 2003 var tekin stefnumarkandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs (AVS) með rannsóknum og þróun; leggja meiri áherslu á verðmæti afurða en magn hráefna. Í því samhengi skiptir skynsamlegt umhverfi auðlindastýringar vissulega máli. Á hinn bóginn er það okkar skoðun að áhersla á vinnslu og virðiskeðjuna skili samfélaginu mun meiri árangri. Því var í fréttinni á vef Matís ekki fjallað um kvótakerfi.

Fjármögnun verkefna er fyrst og fremst í gegnum samkeppnissjóði, slík fjármögnun er flokkuð sem sértekjur og er hlutfall sértekna Matís hátt m.t.t. áþekkra eininga hér heima. Fjármögnun starfsemi Matís er Sigurjóni hugleikin og er það vel. Óskandi væri að fleiri alþingismenn, núverandi, fyrrverandi og verðandi, sýndu viðlíka áhuga. Fjárveiting ríkisins í gegnum þjónustusamning við Matís, á grunni fjárheimilda til Matvælarannsókna var á árinu 2016 435 milljónir kr. Að sköttum og opinberum gjöldum greiddum, stóðu eftir 80 milljónir. Sértekjur Matís árið 2016 námu 1180 milljónum. Þar af var 481 milljón aflað úr alþjóðlegum samkeppnissjóðum og 252 milljónum úr innlendum samkeppnissjóðum. Vart þarf að geta þess að árangur Matís í sókn í alþjóðlega samkeppnissjóði, s.s. Horizon 2020 áætlunina, þykir eftirtektarverður. Meðal samstarfsaðila okkar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum eru Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Háskóli Íslands og Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Ráðstefnan og hliðarviðburðir hennar voru fjármögnuð í víðtæku samstarfi eins og sjá má á heimasíðu WSC2017

Fjárfesting í nýsköpun er forsenda framfara í matvælaiðnaði. Því miður er fjárfesting í nýsköpun í evrópskum matvælaiðnaði eingöngu helmingur þess sem er í bandarískum matvælaiðnaði og þriðjungur, sé miðað við Japan. Mikið þarf til að halda í horfinu, hvað þá að vera leiðandi í síbreytilegum heimi. Rétt er að sjávarútvegur, fiskvinnsla sérstaklega, stendur öðrum matvælaiðnaði að baki á heimsvísu, þó eftir athöfnum íslensks sjávarútvegs sé tekið víða um heim eins og umræður á nýliðinni ráðstefnu báru með sér. Í því ljósi má nefna ásókn Norðmanna og Færeyinga í íslenska þekkingu og tækni á sviði sjávarútvegs.

Nýsköpun í sjávarútvegi felst m.a. í bættri meðhöndlun afla, nýjum kæliaðferðum, sjálfvirkni, nýjungum í vöruframboði og nýjum leiðum til markaðssetningar. Allt eru þetta dæmi um aðferðir sem hafa haft áhrif á verðmæti íslenskra þorskflaka á breska markaðnum frá 1981. Það ár var verulegur hluti þorsks fluttur út heill, án nokkurrar vinnslu. Ástand hráefnis var oft ábótavant. Það sem unnið var á Íslandi var flutt út blokkfryst að verulegu leyti. Í dag er verulegur hluti þorskafurða sem fluttur er til Bretlands, við stýrðar aðstæður, ferskir flakabitar sem hlotið hafa góða meðhöndlun í gegnum virðiskeðjuna. Þetta er ein af lykilástæðum þess að verð á breskum neytendamarkaði hafa hækkað svo sem raun ber vitni. 

Íslendingar hafa verið fyrirferðamiklir með sitt sjávarfang um langt skeið því hefur þróun í íslenskum sjávarútvegi við veiðar sem og vinnslu haft áhrif á vöruframboð og verð á breska markaðnum. Þegar meira var lagt upp úr magni en gæðum tíðkaðist það að fiskiskip sigldu með afla og seldu sem slíkan á uppboðsmörkuðum í breskum höfnum, þá jafnvel uppundir 12-14 daga gamlan, nú er meira um það að fiskur sé flakaður og snyrtur á Íslandi og jafnvel sneiddur í flakabita, þökk sé íslenskri tækniþróun (t.d. Marel og samkeppnisaðilar), fyrir flutning, við stýrðar aðstæður, til Bretlands. Þannig geta íslenskar sjávarafurðir komist nær neytendum eftir þær fara úr landi. Flökun á Íslandi og sú þróun á vörusamsetningu sem flutt er úr landi hefur áhrif á verðþróun og verðmætasköpun. Það er virðingarvert að rýna gögn frá erlendum stofnunum. Þó höfundur sé ekki hagfræðingur má sjá að aðgengilegustu gögn hagstofu Bretlands um fisk sýna smásöluverðþróun á fiskflökum, sem er ekki það sama og innflutningsverð í Bretlandi eða útflutningsverð frá Íslandi. Breytingar urðu á verðgildi breska sterlingspundsins á árinu 2016 gagnvart örðum gjaldmiðlum, slíkt kann að hafa áhrif á smásöluverð matvæla. Þróun gjaldmiðla er mismunandi og þeir eru misgamlir og misstöðugir. Vissulega er verðþróun fiskflaka veigamikill þáttur í verð þróun þorskafurða. Fiskflök í smásölu í Bretlandi hafa breyst á síðustu 35 árum minna er um það að gamall fiskur er flakaður í versluninni, þó eitthvað sé um að fiskflök séu þýdd upp í verslunum, og fiskflök séu enn seld frosin í Bretlandi er nú oftar að finna flakabita sem fluttir hafa verið sem slíkir kældir frá Íslandi. Fiskflök sem unnin væru með samahætti og gerðist og gekk fyrir 35 árum myndu ekki seljast við sama verði og fiskflök sem meðhöndluð eru með þeim þætti sem algengt er í dag. Sé litið á einstaka markaði má ekki gleyma því að íslenskar þorskafurðir eru í það minnsta fluttar héðan beint til þriggja heimsálfa, þá má horfa til verðþróunar (vísitölu sjávarafurða) á öðrum mörkuðum. Munur á þróun verðmætasköpunar úr öllum þorskafurðum Íslendinga og verðþróun þorskflaka í smásölu á Bretlandsmarkaði, má að hluta til skýra með því að matvælahrávörur hafa ekki hreyfst jafn mikið allstaðar.


Verð hrávöru (e. Commodity) hefur breyst hægar en sérvöru eins og flaka. Matvælaverðsvísitala Alþjóðabankans (e. World Bank) hækkaði um 38% frá 1981 til 2016. Matvælaverðsvísitala Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) hækkaði um 51% á samatíma á verðlagi hvers árs. Sé litið til fiskverðs sérstaklega hefur fiskverð á heimsvísu hækkað um ríflega 51% frá 2003 til ársins 2016, meðan hafa fiskflök í Bretlandi hækkað um 57%. Á sama tíma hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða Íslendinga hækkað um 145% í SDR, úr 0,53 SDR/kg afla í 1,3 SDR/kg afla eins og greint var frá í frétt Matís. Þökk sé þróun sem m.a. hefur verið drifin áfram af samstarfi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja- og samtaka, menntastofnana, Matís, iðnfyrirtækja og fleiri hagaðila í sjávarútvegi. 

Til að að íslenskt atvinnulíf geti náð árangri hefur Matís lagt mikið upp úr því að rækta mannauð, m.a. með samstarfi við íslenska háskóla, samstarf sem vonandi verður hægt að fjármagna til framtíðar, þrátt fyrir boðaðan niðurskurð í fjárlagafrumvarpi 2018. Nauðsynlegt er að hafa góð gögn til að byggja á þegar taka þarf ákvarðanir. Of oft þarf að benda á að þriðja verðmætasta fisktegundin í útflutningstölum Íslendinga sé annar afli. Með nothæf gögn í handraðanum skulum við ræða málin opinskátt, án upphrópana, og setja þau í samhengi. Hver eru t.d. áhrif þess að hætta að bjarga verðmætum og mæta þess í stað þörfum? Hvernig getum við enn bætt samstarf og samhæfingu íslenskra aðila? Samstarf Matís í gegnum tíðina við hagaðila í sjávarútvegi, ekki síst Landssamband smábátaeigenda, hefur skilað árangri við aflameðhöndlun og verðmætasköpun. Nú þurfum við að horfa til framtíðar og sækja enn lengra fram á vettvangi verðmætasköpunar á grunni þekkingar og auðlinda sjávar við Ísland og um allan heim.