Vegna skýrslu Félags atvinnurekenda (FA) „Eftirlitsgjöld á atvinnulífið“

4.4.2017

Matís sendir frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna skýrslu FA „Eftirlitsgjöld á atvinnulífið“ þar sem m.a. er rætt um gjaldskrá Matís í samhengi við eftirlit með matvælaöryggi. Í skýrslunni er gagnrýnt að ekki sé hægt að nálgast heildstæða gjaldskrá Matís, hvorki gegnum bein samskipti né á heimasíðu Matís.

Við fögnum opinni umræðu um eftirlit með matvælaöryggi á Íslandi og viljum í því samhengi benda á eftirfarandi:

Matís er rannsóknarfyrirtæki sem, eins og önnur rannsóknarfyrirtæki á Íslandi, þjónustar opinbera eftirlitsaðila (Matvælastofnun og landshlutabundin heilbrigðiseftirlit) og einkaaðila varðandi mælingar og rannsóknir. Matís hefur byggt upp viðamikla innviði á sviði efna-, örveru- og erfðamælinga matvæla og umhverfissýna hérlendis með það fyrir augum að þjónusta matvælaframleiðendur og stjórnsýslu matvælaöryggis sem best. Þessi uppbygging stuðlar að bættu matvælaöryggi fyrir neytendur og framleiðslu heilnæmra matvæla.

Verðlagning Matís er byggð á raunkostnaði við mælingar og rannsóknastofa Matís er faggilt. Kostnaður við að viðhalda faggildingu er hluti af verði mælinga hjá Matís, ásamt afskriftakostnaði, sérhæfðu viðhaldi, efniskostnaði, tíma starfsfólks o.fl.  Matís tekur við sýnum alla virka daga en vissar mælingar, sér í lagi örverumælingar, krefjast ákveðins tímaramma, sem veldur því að vinna verður í einhverjum tilvikum að vera framkvæmd um helgar.

Við gerum viðskiptavinum okkar tilboð í mælingar og vinnum með þeim að því að halda kostnaði í lágmarki, t.a.m. með því að leggja áherslu á að skipulag sýnatöku henti m.t.t. skipulags mælinga.  Fjöldi sýna skiptir miklu máli í þessu samhengi og þarf að taka m.a. að taka mið af tímasetningu mælinga og aðgengis að rannsóknabúnaði. Útgáfa einhverskonar opinberrar verðskrár væri til þess fallin að minnka hagkvæmni og sveigjanleika og myndi ekki þjóna hagsmunum viðskiptavina okkar.

Ísland er í alþjóðlegri samkeppni í framleiðslu matvæla.  Matís er í alþjóðlegri samkeppni um mælingar.  Samkeppnisaðilar okkar hafa aðgang að margföldum sýnafjölda í samanburði við íslenskar aðstæður.  Slíkt býður upp á einfalda verðskrá, þar sem miðað er við að sýni fari aftast í röðina þegar þau koma.  Greitt er sérstaklega fyrir forgang. Stærð matvælaframleiðslu á Íslandi leyfir ekki slíkt fyrirkomulag. Þess vegna er fjárfesting í innviðum og mannauði á rannsóknarstofum Matís þeim mun mikilvægari.  Þannig er stutt við matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu og útflutningshagsmunir lykilatvinnuvega þjóðarinnar tryggðir, matvælaöryggi á Íslandi aukið, viðbragðstíma styttur og verðmætasköpun matvælaframleiðenda efld.

Sérstakar athugasemdir:

Bls. 14: Varðandi hækkun á „sýnatökugjaldi“ úr 61.320 krónum í 81.760 krónum. Gert er ráð fyrir því að átt er við varnarefnamælingar í ávöxtum og grænmeti. Árið 2014 fór fram viðamikil uppbygging á sviði varnarefnamælinga hjá Matís þar sem efnum sem mæld eru var fjölgað úr u.þ.b. 60 upp í 135 og eru í dag mæld tæplega 190 efni. Þetta er gert til að mæta þeim kröfum sem settar eru í matvælalöggjöf Íslands og Evrópu varðandi hámarksgildi varnarefna í þessum vörum. Ástæða hækkunar var fjölgun efna og er hún minni en hlutfallsleg fjölgun efnasambanda.

Bls. 21: Verðskrá Matís er ekki birt með tilskildum hætti. Matís er í samkeppni á frjálsum markaði. Viðskiptavinir leita tilboða og haga viðskiptum sínum eftir þeim tilboðum. Matís gerir ávallt tilboð fyrir hvern og einn viðskiptavin með það fyrir sjónum að hagræða kostnaði viðskiptavinar með hagræðingu í vinnu Matís, t.a.m. út frá tímasetningu mælinga og viðeigandi skipulags sýnatöku. Opinberir aðilar, Matvælastofnun og landshlutabundin heilbrigðiseftirlit, sem senda inn opinber eftirlitssýni, skipuleggja sýnatöku í samvinnu við Matís með það að markmiði að lágmarka kostnað eftirlitsþega. Verðhækkunum á mælingum er haldið í lágmarki, t.d. hafa hækkanir flest undanfarin ár verið mun lægri en hækkun launa og annars kostnaðar við mælingar. 

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, sviðsstjóri Mæliþjónustu og innviða

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, hronn.o.jorundsdottir@matis.is


Fréttir